Hversvegna hnökrar flík?

Líkt og með þvotta og geymslu pistilinn, var sumt ég ég vildi bæta við þennan pistil, enda hnökrar og það sem orsakar hnökra efni í heila bók. Ég er sjálf alltaf að verða fróðari, í gegnum vinnu við gæðaeftirlit og prófanir á fötum, og finnst því tilvalið að laga þennan pistil líka.

Ég hef oft fengið spurningar um hversvegna garn og flíkur hnökri. Svarið er ekki einfalt en mig langar að benda á nokkra þætti sem hafa áhrif.

1. Hvernig hárin/trefjarnar liggja í garninu. 
2. Hversu mikill snúningur er á bandinu.
3. Hversu "loðið" garnið er.
4. Hversu mikill núningur er á flíkinni.
5. Prjónfesta.
6. Lengd trefjanna (háranna)

Þegar hárin liggja ekki öll eins (líkt og gerir í kambgarni), eru alltaf hár sem munu reyna að vinna sig útúr garninu. Þar hefur snúningurinn áhrif, of lítill snúningur gefur trefjunum tækifæri á að mjaka sér út, á meðan meiri snúningur heldur í þær. Hérna kemur lengdin líka inn, því langar tregjar haldast betur í snúningnum en stutt.

Við það að trefjarnar leitast út á við sem og þegar garn er loðið (trefjar sem standa útúr garninu strax við framleiðslu) er meiri hætta á hnökri. Flíkin hnökrar því þessar trefjar sem eru að hálfu fastar í garninu og hálfu lausar,  rúllast saman við núning og mynda litlar kúlur eða svokallaða hnökra. Núningur sem verður þegar 2 fletir nuddast saman, svosem í undir höndum og í klofi, ýtir undir það sem ég nefndi hér að framan, og því er ekki ráðlagt að nota garn sem er gjarnt á að hnökra á slitfleti.

Það virkar kannski skrítið, en prjónfesta hefur líka mikið að segja, en hún er ekki eingöngu ákvörðuð út frá sverleika garnsins. Það getur nefnilega hjálpað til að "halda aftur að" hnökrum ef prjónað er þétt t.d. en þá bindast trefjarnar betur og eiga erfiðara með að leita út á við. Það er því viss kostur að fylgja uppgefinni prjónfestu og vera viðbúinn því að garnið hegði sér öðruvísi en vanalega sé það ekki gert. Ég mæli því með að fylgja uppgefinni prjónfestu á garninu, en hún er gefin til að fá sem besta eiginlega úr því. 


Það er almennur misskilningur að gerviefni svo sem akrýl hnökri meira en t.d. ull. Það er nefnilega ekki innihald trefjanna sem ræður heldur gæði þeirra. Góð akrýl hnökrar til að mynda minna en laust snúin, illa kembd ull. Hinsvegar er ekki langt síðan farið var að gera góð gerviefni og því situr það í mörgum að t.d. akrýl hnökri mikið. Þegar ég tala um góð gerviefni þá á ég við lítið loðin, passlega spunning og kemd úr frekar löngum trefjum. En það eru allt þættir sem hafa áhrif á hvort flíkin hnökri.

Margir nota þar til gerðar hnökravélar til að snyrta fatnað, en það leysir vandamálið aðeins tímabundið þar sem vélin sker á trefjarnar, situr alltaf eitthvað eftir sem mun leitast við að komast út. Þess vegna er mælt með að toga hvern og einn hnökra af, og þannig ná heilum trefjum. Með því að fjarlægja hnökra með þeim hætti eru minni líkur á að flíkin hnökri aftur.

Þetta er ekki tæmandi listi og eru hnökrar efni í langt spjall og jafnvel litla bók, það spjall tek ég gjarnan, því gæða-perrinn í mér elskar svona. 

Endilega skrifið ef það er eitthvað :)

Kær kveðja,

Gæða-perrinn