Hvernig prjóna ég lista?

Það er alltaf smá persónubundið hvernig við gerum listann og hér lýsi ég því hvernig ég geri, eitthvað sem ég hef prófað mig áfram með og virkar ágætlega.

Ég prjóna lykkjurnar upp á fínni prjón, t.d einu til einu og hálfu númeri fínni og tek fast í þær og tek upp frekar fleiri en færri, ég prjóna svo til baka með fína prjóninum og fækka lykkjum ef þess þarf. Svo skipti ég á prjón sem er hálfu númeri minni en ég nota í flíkina og prjóna fram og til baka slétt og brugðið eða hvernig lista sem ég er að gera. Ég byrja alltaf á því að gera heila listann og vel tölur áður en ég felli af. Litlar tölur þurfa minni lista.Síðan felli ég af með sléttum lykkjum frá réttu og passa í leiðinni að fella ekki af, of laust eða of fast.

Ég geri hnappagatalistann alveg eins nema auðvitað geri ég hnappagöt, þau mæli ég út og set prjónamerki þar sem ég ætla að hafa þau.  Efsta og neðsta ca 3 lykkjum frá kanti og reyni að staðsetja þau á miðjan listann. Ef listinn er til dæmis 6 umferðir þá set ég hnappagötin í 4 umferð. Hnappagötin geri ég þannig: prjóna að PM slæ upp á prjóninn einu sinni eða tvisvar eftir því hvað tölurnar eru stórar, prjóna tvær sléttar saman. Uppsláttinn prjóna ég svo sem eina lykkju í næstu umferð.

Muna að æfingin skapar meistarann :)

Prjónakveðja,

Ella Magga