Frábær byrjun

Í dag eru 4 vikur síðan við opnuðum litlu sætu vefverslunina okkar. Viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum og erum við frænkur ákaflega þakklátar. 

Á þessum mánuði erum við búnar að bæta 7 uppskriftum í safnið, en kistan er full af hugmyndum og erum við með nokkarar uppskriftir á prjónunum.

Jólahúfan okkar hefur rokið út, hana gáfum við fyrir opnun, en vegna eftirspurnar bjóðum við hana áfram frítt með kaupum á annarri uppskrift út mánuðinn sé notaður afsláttarkóðinn JÓL2018. 

Við hófum smá samstarf við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað, en okkur fannst mikilvægt að gefa skólanum nútímalegar uppskriftir, með lærdómsgildi, til að stuðla að auknum áhuga á prjónaskap. Það verður gaman að heyra hverning þeim líst á og fylgjast með hvað vinnst úr uppskriftunum, en m.a. má fylgjast með starfi skólans á instagram.

Það hafa bæst við nokkrir bloggpóstar á síðuna, með hlekkjum á t.d. dúska og leður merki til að setja punktinn yfir i-ið á fallega flík. Við munum reyna að bæta við hlekkjum og fróðleik milli þess sem við prjónum, skrifum uppskriftir og spjöllum við ykkur í Facebook hópnum Knillax systur. Það er aldrei lognmolla hjá okkur nefnilega.

Jákvæðni og gleði hefur einkennt þennan mánuð sem leggur línurnar fyrir framtíðinni.  Endilega fylgstu með hérna á síðunni, eða skráðu þig á póstlista (hérna neðst á síðunni) svo þú missir nú ekki ef neinu. Við erum rétt að byrja gleðina. 


Prjónakveðja, 
Ella Magga og Ólöf Inga