Maren Ösp

Maren Ösp

Ég heiti Maren, er 40 ára og bý í Englandi ásamt eiginmanni mínum og stelpunum okkar þrem sem eru 8, 5 og 2ja ára. Ég er fædd og uppalin á Akranesi og lærður hjúkrunarfræðingur.

Mamma og ömmur mínar kenndu mér að prjóna. Ég er svolítill ‘skorpuprjónari’. Prjónaði líklega hundrað lopapeysur í náminu og á næturvöktum á hjartadeildinni. Eftir að ég varð ólétt af elstu stelpunni minni prjónaði ég svo bara barnaföt. Svo hef ég tekið sjalaæði líka, sem var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt

Ég væri alveg til í að prjóna bara á stelpurnar en vegna veðurfars og bölvaðra leiðinda í þeim þá ganga þær aldrei í því sem ég prjóna á þær, nema húfum! Ég prjóna samt svolítið á minnstu stelpuna mína og svo prjóna ég mikið á sjálfa mig og í gjafir.

Ég er oft með (of) mörg verkefni í gangi í einu, það er svo gott að geta skipt ef maður fær leið á því sem maður er að gera. Ég elska að læra nýja tækni í prjóni, finnst mjög skemmtilegt að prufa eitthvað nýtt.
Mér finnst best að prjóna yfir sjónvarpinu.. þó ég missi stundum þráðinn!!

- Maren Ösp Hauksdóttir -