Ósk

Ósk

Ég heiti Ósk og er hjúkrunarfræðingur. Ég bý í Noregi en kem upprunalega frá Grindavík.
Ég lærði að prjóna sem barn og man vel hvað mér fannst alltaf leiðinlegt í handavinnu því ég var svo óþolinmóð. Ég var ótrúlega heppin með yndislegan handavinnukennara sem hafði þolinmæði fyrir okkur báðar svo ég kláraði nú öll verkefnin. Mér fannst engu að síður alltaf gaman að prjóna.

Þegar ég eignaðist son minn 2008 kveiknaði áhuginn fyrir próni aftur og langaði mig að gera á hann vinsælu norsku Jólasveinahúfuna (Nisselue). Það var fyrsta uppskriftin sem ég fór eftir og var húfan mjög vel heppnuð. Eftir það langaði mig svo að gera peysu. Bað vinkonu mína fyrst um að prjóna fyrir mig peysu, en hún hélt nú ekki. Ef ég kynni slétt og brugði gæti ég gert peysu. Hún var svo til staðar til að leiðbeina mér og hefur kennt mér mikið varðandi prjónaskap síðan. Í dag leiðbeinum við hver annari og deilum hugmyndum, sem mér finnst mjög skemmtilegt. Nú, eftir að ég gerði þessa peysu hef ég aldrei efast um prjónagetuna og geri það sem mér dettur í hug hverju sinni. Ef það er flókið les ég bara nokkrum sinnum yfir uppskriftina, kíki á youtube eða hringi í vin. Stundum hendi ég líka verkinu í prjónakörfuna og tek mér smá pásu (þar sem ég er enn smá óþolinmóð).

Ég prjóna á vini og vandamenn, sjaldnast eftir pöntun því mér finnst ekki eins gaman að prjóna eftir uppskrift eða litapöntun annara. Reynslan sýnir að þau verk ganga töluvert hægar fyrir sig. Ég er yfirleitt með lágmark 3 verk í gangi því þá gerast hlutirnir. Get skipt á milli eftir því í hvaða skapi ég er í og get þá alltaf tekið upp litla verkefnið þegar ómolinmæðin krefst þess að sjá snöggan og öruggan framgang. Í dag er einmitt mikið um litlu verkefnin enda prjóna ég allra mest á yngsta barnið mitt ásamt sængurgjöfum.

Ég prjóna helst alla daga, hvar sem er og hvenær sem er og þvælist með prjónapoka með mér út um allt. Börnin mín og vinna eiga það til að þvælast fyrir þessu áhugamáli og grínast ég oft með að ég muni loksins hafa almennilegan tíma fyrir þetta prjónana þegar ég verð amma.

Mér finnst rosalega gaman að prufuprjóna nýjar uppskriftir og fylgjast með þróun og tískunni í prjónaheiminum. Svo er það líka svo lærdómsríkt fyrir prjónara að taka þátt í hönnunarferlinu. Ég hef loksins lært að það er í alvörunni sniðugt og skynsamlegt að gera prjónafestuprufu.

Á síðasta ári opnaði ég prjóna instagram og hægt er að fylgja mér þar og fá hugmyndir :) @oskaprjon

- Ósk Kjartansdóttir -