Steinunn

Steinunn

Ég er 45 ára, skrifstofustjóri röntgendeildar LSH, nýbúin að ljúka D-vottun IPMA í tengslum við námið Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Eiginmaðurinn kallaði það nám "Þegiðu og gerðu eins og ég segi þér". Veit ekki hvort hann tali af sinni eigin reynslu þar...?😮🤔
Börnin eru farin að heiman, bara hundurinn eftir.
...og Halli. Það má ekki gleyma Halla 😱

Ég lærði undirstöðuatriðin í prjóni í handavinnukennslunni hjá Öddu í Héró á Laugarvatni á unglingsárunum. Ég man nú ekkert sérstaklega eftir einhverjum spes stykkjum sem þar voru prjónuð - man meira eftir því að þurfa að rekja upp í metravís - en Adda gat alltaf huggað okkur stelpurnar á því að "því meira sem þið rekið upp, þeim mun betur taka strákarnir eftir ykkur þegar þið byrjið að nota flíkina". Þetta seldi big-time og við trúðum því að sjálfsögðu. Eins og öllu öðru sem Adda sagði enda hafði hún alltaf rétt fyrir sér :) Svo var hún að vísu líka gift skólastjóranum svo maður tók enga sénsa á að mótmæla þessari röksemdafærslu hennar ;)

Það var svo mamma mín sem hjálpaði mér að fínpússa aðferðirnar, hún gaf sig t.d. ekki fyrr en ég var búin að læra að gera fallegan hæl skammlaust. Hefði örugglega stungið úr mér augun með prjónunum ef ég hefði neitað að læra það því allar alvöru húsmæður með snefil af sómakennd urðu að kunna þessa list. Þetta var auðvitað allt fyrir tíma Youtube og Google svo það var ekki um annað að ræða en að læra þetta í eitt skipti fyrir öll ef maður ætlaði að eiga séns á því að geta rumpað af einu sokkapari eða svo þegar blessuð börnin byrjuðu að kvarta undan kulda.

Mér hefur alltaf þótt gaman að búa til fallega hluti, hvort sem það er í prjónaskap eða öðru. Mér hefur líka alltaf þótt gaman að fara aðeins út fyrir boxið og reyna mig við hluti sem ekki hafa verið gerðir áður, þó það sé gott að geta reitt sig á styrka leiðsögn góðrar uppskriftar þegar stefnir í ógöngur.
Ég prjónaði mjög mikið á unglingsárunum og fram undir fullorðinsár, prjónaði mig eiginlega í gegnum allan Menntaskólann. Man nú raunar ekki hvað varð um þau stykki, ekki frekar en svo margt annað sem er gleymt og grafið frá þeim árum (sem betur fer kannski...)
Fyrstu lopapeysuna prjónaði ég samt ekki fyrr en ég var komin svolítið yfir þrítugt, og eftir það var ég óstöðvandi. Þær ruddust af prjónunum hver af annarri, bæði opnar og lokaðar, með og án hettu, stuttar, síðar, aðsniðnar og ég veit ekki hvað og hvað. Ekki þýddi að kalla elsku mamma þegar kom að því að lykkja undir höndum eða setja rennilás svo ég varð bara að læra það líka.
Svo fékk ég eignilega nóg af prjónaskap haustið 2013. Tók mér ca. 3 ára hlé frá prjónunum og fór að hekla. Ég hafði lært það líka sem krakki og áttaði mig á því að það var ekki síður skemmtilegt en að prjóna. Svo rann sú vitleysa af mér, prjónarnir kölluðu og ég komst að því að ég get ekki sleppt af þeim takinu -enda lendir maður bara í veseni ef maður sleppir þeim, lykkiurnar detta af og allt fer í klessu 🙈.

Ég á ennþá engin barnabörn (minni dætur mínar samt stöðugt á að þær eru ekkert að yngjast sko...) sem ég get prjónað á, en börnin mín eiga eldri hálfsystur sem á 2 börn og þau hafa fengið töluvert (!!!) af flíkum frá mér. Elsku Tinna frænka á líka 2 lítil börn sem hafa verið tilraunadýr hjá mér upp á síðkastið auk þess sem lítil vinkona í næsta húsi í sveitinni fær stundum "alveg óvart" pakka frá mér.

Þessu til viðbótar hef ég gert töluvert mikið af því að prjóna fyrir Rauða Krossinn, í verkefni sem kallast "Föt sem framlag" en þær prjónaflíkur hafa verið sendar 0-2 ára börnum í Hvíta-Rússlandi. Það verkefni er reyndar að taka á sig aðra mynd um þessar mundir, og mun snúa að börnum flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi.

Ég bý í Hafnarfirði á virkum dögum og í litla krúttlega húsinu mínu í Biskupstungunum alla aðra daga.

Við hjónin reynum að komast á hjólin okkar þegar viðrar almennilega (sem gerir ekkert of oft hér...) og höfum t.a.m. sótt um að fá að taka þátt í Team Rynkeby Ísland árið 2020. Verst hvað það tekur mikinn tíma frá prjónaskapnum... :/

- Steinunn Kristín Pétursdóttir -