Um uppskriftirnar okkar

Við sem stöndum að Knillax erum mjög ólíkar og þess vegna munu þið sjá mun á uppskriftunum. Við erum með grunn sem við förum eftir, en setjum okkar persónulega punkt yfir i-ið. Þess vegna eru textar á myndum ekki eins og ekki endilega öllum útskýringum komið eins frá sér. En það er það sem gerir þetta svo skemmtilegt og "knillaxað" allt saman.

Þið munuð líka sjá að við titlum okkur ýmist hönnuði eða skrifum einfaldlega bara hver gerði uppskriftina. Það er vegna þess að ef við höfum gert einfalda flík eða þekkt snið og sett í nýjan búning, notað munstur sem hefur verið notað lengi og jafnvel mikið og svo mætti áfram telja, þá finnst okkur það ekki endilega hönnun, heldur útfærsla. Við skrifum engu að síður allar okkar uppskriftir og reiknum sjálfar frá grunni.

Við erum engum háðar og ekki í samstarfi við neinn með garn, þess vegna gefum við oft upp nokkrar gerðir. Uppgefið magn er aðeins viðmið og miðast við það garn sem við prjónuðum úr, ýmsir þættir geta þó verið til þess að þú þurfir meira eða minna garn. 

Prjónfesta er lykilatriði þegar velja á garn og prjóna. En á miðanum á garninu stendur yfirleitt hver eðlileg prjónfesta fyrir garnið er og hvaða prjóna skal nota til að ná henni. Það er fínt viðmið og um að gera að velja garn sem kemst næst því sem upp er gefið í uppskrift, svo má stilla af með prjónastærð, fínni eða grófari, en uppgefið. Rétt prjónfesta út frá uppskrift gefur nefnilega rétta stærð á flík. Þó svo okkur finnist lítill munur eða nennum ekki að gera prufu, getur það orðið til þess að flíkin passi ekki.